„Þetta gerðist allt mjög hratt, ég tók þátt í hæfileikakeppni á sjónvarpsstöðinni BBC þegar ég var þrettán ára gömul. Umboðsmaðurinn minn hafði samband við mig stuttu eftir þetta kvöld og það var þá sem ég fór að vinna að minni fyrstu plötu,“ segir Joss Stone í viðtali við Fréttablaðið.
Nýjasta plata hennar, Water for Your Soul, kom út 2015 og sýnir vel hvernig unglingsstúlkan með undraröddina hefur blómstrað og þroskast sem listamaður „Ég er mikið fyrir sálartónlist, og tónlist sem kallar fram tilfinningar, platan er frekar frábrugðin því sem ég hef verið að gera, hún inniheldur reggí, sem ég elska. Reggí gerir fólk hamingjusamt og fær fólk til þess að líða vel og frjálst,“ segir hún í léttum tóni.
Á löngum og farsælum tónlistarferli sínum hefur Joss komið fram með fjölmörgum goðsögnum úr tónlistarheiminum, svo sem Rod Stewart, James Brown, Van Morrison, Jeff Beck, Lauryn Hill, LeAnn Rimes, Ricky Martin og Robbie Williams. Joss segir að það hafi verið gott að fá tækifæri til þess að vinna með fólki sem hún ber virðingu fyrir og lítur upp til í faginu „Það er erfitt að segja hverjum var best að vinna með, þau eru öll mjög ólík og ég vann með þeim á ólíkum tímum í lífinu, en það var frábært að vinna með þeim, það skiptir ekki máli hvort þau eru heimsfrægir tónlistarmenn, heldur snýst þetta um hvernig það er að skapa tónlist með góðu fólki og öllum í kring um þig, það eru allir partur af sköpuninni.“

Þetta mun því verða í fyrsta sinn sem Joss Stone heimsækir Ísland og kveðst hún spennt fyrir landi og þjóð. Hún mun aðeins dvelja hér í fáeina daga en vonar að það dugi til þess að skoða sig um. „Ég verð að muna eftir því að ég er í vinnunni en markmið mitt er að búa til tónlist með einhverjum frá Íslandi, ég mun þó vonandi koma aftur til Íslands seinna, þegar ég er ekki að vinna, og skoða mig um.“
Hvað mega gestir Hörpu eiga vona á að heyra þegar þú kemur til landsins, verður lagið „You Had Me“ á lagalistanum, en það lag sló rækilega í gegn á útvarpsstöðvum landsins á sínum tíma? „Ég kem fram ásamt stórri hljómsveit og aðalmálið er að hafa gaman með gestum tónleikanna. Venjulega tek ég ekki þetta tiltekna lag, en ætli ég geri það ekki núna fyrst ég veit að fólk fílaði það,“ segir hún hlæjandi og bætir við að hún muni líka syngja lög af nýju plötunni sinni í bland við gamalt og gott efni.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. september.