Ljóst var að Sigmundur Davíð var í töluverðu uppnámi yfir úrslitunum en fjölmiðlamenn eltu hann út úr aðalsal Háskólabíós og inntu hann eftir fyrstu viðbrögðum við niðurstöðu kjörsins.
Sigmundur Davíð sagðist svekktur yfir úrslitunum og kvaðst ekki hafa búist við þessari niðurstöðu. Þá sagðist hann vonast til þess að flokkurinn yrði sameinaður en bætti við að hann hefði lýst því að það væri hlutverk formanns að vinna að slíku. Hann vildi síðan ekki segja af eða á varðandi það hvort hann hyggst sitja áfram í oddvitasæti flokksins í Norðausturkjördæmi.
Rætt var við Sigurð Inga í kvöldfréttum Stöðvar 2 og hann sagðist ekki kvíða því að vinna með öllum Framsóknarmönnum, burt séð frá því hvern fólk hafði stutt í formannskjörinu. Þá sagðist hann að sjálfsögðu munu reyna að virkja krafta Sigmundar Davíðs innan flokksins.
„Eins og ég sagði í ræðu minni þá var Sigmundur svo sannarlega réttur maður á réttum tíma á réttum stað með hugmyndir sem að við höfum síðan verið að vinna úr á liðnum árum og við munum að sjálfsögðu nýta hans krafta sem og allra annarra í flokknum,“ sagði Sigurður Ingi.
Í spilaranum hér að ofan má sjá þegar Sigmundur Davíð yfirgaf flokksþingið í dag og frétt Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.