Ísland vann nú rétt í þessu til bronsverðlauna í blönduðum flokki á lokadegi EM í hópfimleikum sem fer fram í slóvensku borginni Maribor.
Íslenska liðið fékk 56,066 í heildareinkunn. Ísland bætti sig á öllum áhöldum og heildareinkuninn var 2,65 hærri en í undankeppninni.
Þetta eru fyrstu verðlaunin sem blandað lið frá Íslandi í fullorðinsflokki vinnur til á EM í hópfimleikum.
Svíar skutust upp fyrir Dani á lokasprettinum og hirtu gullið. Sænska liðið fékk 59,816 í heildareinkunn og það danska 58,350.
Íslenska liðið byrjaði á gólfæfingum, sýndi frábæra takta og fékk 21,066 í einkunn fyrir. Ísland var í efsta sætinu eftir 1. umferðina.
Stökk á dýnu og trampólíni gengu einnig skínandi vel og skiluðu íslenska liðinu 17,800 og 17,200 í einkunn.
Á endanum varð 3. sætið niðurstaðan og íslensku krakkarnir eru bronsmedalíunni ríkari.
Keppni í kvennaflokki hefst klukkan 13:00. Fylgjast má með henni með því að smella hér.

