Maðurinn hefur verið nafngreindur sem Christopher Steele, fyrrverandi leyniþjónustu manni bresku leyniþjónustunnar MI6. Hann starfar nú sjálfstætt og rekur fyrirtækið Orbis Business Intelligence sem sérhæfir sig í að afla upplýsinga.
Sjá einnig: Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa „nornaveiðar“
Í skýrslunni er því haldið fram að að Rússar hafi fylgst með og safnað upplýsingum um Trump um langt skeið. Einnig hafi rússneskir njósnarar útvegað honum upplýsingar um mótframbjóðenda hans, Hillary Clinton. Meðal annars eru Rússar sagðir eiga myndband og upptökur af Trump og hópi vændiskvenna á hóteli í Moskvu árið 2013.
![](https://www.visir.is/i/46B281F20DD5476DC2CF770355B3B46ABF42DE66BC90CBD107BA9D700AF661B2_390x0.jpg)
Varð þreyttur á hægagangi FBI
Steele starfaði um árabil fyrir MI6 í Rússlandi og Frakklandi áður en hann hóf störf fyrir utanríkisráðuneyti Bretlands. Honum hefur verið lýst sem afar áreiðanlegum manni sem sagt hefur verið aðalástæða þess að John McCain bað bandarísku alríkislögregluna FBI, að rannsaka innihald hennar.
Eftir að Steele lét af störfum stofnaði hann eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í „ráðgjöf, upplýsingaöflun og flóknum rannsóknum, oftar en ekki þvert á landamæri.“
Sjá einnig: Donald Trump: „Þetta er eitthvað sem myndi gerast í Þýskalandi nasismans“
Steele hefur komið víða við en hann aðstoðaði meðal annars FBI við rannsókn á spillingu innan FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.
Skýrslan sem um ræður er að sögn The Guardian komin til vegna þess að Repúblikanar sem voru andstæðingar Trump báðu Steele um að rannsaka hinn verðandi forseta. Steele á sjálfur að hafa haft samband við FBI vegna skýrslunnar en orðið þreyttur á hægagangi innan FBI og sleit samstarfi sínu við stofnunina.
Skömmu seinna komst skýrslan í dreifingu á meðal stjórnmála- og fjölmiðlamanna í Bretlandi.