Maðurinn sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í síðasta mánuði var yfirheyrður í morgun. Rúm vika er frá síðustu yfirheyrslum og hefur maðurinn nú setið í einangrun á Litla-Hrauni í þrjár vikur.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, segist ekki geta tjáð sig um efni yfirheyrslnanna, að öðru leyti en því að ekki liggi fyrir játning í málinu. Aðspurður hvort maðurinn neiti sök í málinu, segist Grímur ekki geta tjáð sig frekar.
Lögreglan bíður enn niðurstöðu úr rannsókn á lífsýnum af fatnaði og öðrum munu sem lagt var hald á í tengslum við málið, en sýnin voru send utan til rannsóknar fyrir þremur vikum. Búið er að fara yfir öll sönnunargögn í málinu og verið er að undirbúa gagnapakka sem sendur verður héraðssaksóknara. Lögregla og ákæruvald hafa tólf vikur frá handtöku til þess að gefa út ákæru.
Sem fyrr segir hefur maðurinn, sem var skipverji á togaranum Polar Nanoq, setið í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur.
