
Meðflutningsmenn Teits Björns eru þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Pírötum og Bjartri framtíð.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, segir fjölmörg þingmannamál vera lögð fram á Alþingi án þess að þau séu afgreidd. Það hafi komið til umræðu að bregðast við þessu með því að breyta löggjöfinni þannig að þingmál lifi á milli þinga. „Það er að segja að mál sem eru komin inn í nefnd og til umfjöllunar haldi áfram í þeirri umfjöllun,“ segir Unnur en tekur jafnframt fram að slík breyting hafi þó ekki náð fram að ganga.
Þegar Unnur Brá tjáði sig um sambærilegt áfengisfrumvarp árið 2014 fagnaði hún því að frumvarpið hefði verið lagt fram. „Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að þetta mál komist það langt að það fari í atkvæðagreiðslu í þingsalnum,“ sagði hún þá í þingræðu.
Nú segist Unnur Brá í samtali við Fréttablaðið ekki geta beitt sér fyrir því að þingmálið verði afgreitt frá Alþingi, hvort sem það yrði samþykkt eða fellt. „Forseti Alþingis er forseti allra þingmanna. Hann beitir sér ekki fyrir einu máli frekar en öðru eftir því hvaða persónulegu skoðanir hann hefur.“ Áherslur þingflokkanna skipti meira máli varðandi það hvaða þingmannamál verði tekin á dagskrá.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.