Körfubolti

LeBron náði líka sögulegri tölfræði á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
Titilvörn LeBron James og félaga í Cleveland Cavaliers hefst á laugardaginn þegar úrslitakeppnin hefst. Þeir mæta Indiana Pacers í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar.

LeBron James er ekki mikið í umræðunni um valið á besta leikmanni deildarinnar þökk sér sögulegum tímabilum hjá þeim Russell Westbrook og James Harden. Tímabilið hjá LeBron James var hinsvegar ekkert slor og þegar betur var að gáð, sögulegt líka.

LeBron James varð nefnilega fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA sem nær að vera með að minnsta kosti 25 stig í leik, 8 fráköst í leik, 8 stoðsendingar í leik og 54 prósent skotnýtingu.

LeBron var með 26,4 stig að meðaltali í leik í þeim 74 leikjum sem hann spilaði auk þess að taka 8,6 fráköst í leik, gefa 8,7 stoðsendingar í leik og hitta úr 54,8 prósent skotum sínum. James gerði þarna betur en allir og þar á meðal er fyrirmyndin hans Michael Jordan.

Michael Jordan hafði komist næstur þessu með Chicago Bulls liðsins tímabilið 1988-89 en Jordan var þá 32,5 stig að meðaltali í leik auk þess að taka 8,0 fráköst í leik, gefa 8,0 stoðsendingar í leik og hitta úr 53,8 prósent skotum sínum.

Einn annar hefur náð þessu með yfir 50 prósent skotnýtingu og fyrrnefnda tölfræði en það var Oscar Robertson með Cincinnati Royals 1962-63. Robertson var þá með 51,8 prósent skotnýtingu auk þess að skora 28,3 stig, taka 10,4 fráköst og gefa 9,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

LeBron James var að hækka þessar tölur hjá sér verulega því í fyrravetur var hann „bara“ með 7,4 fráköst og 6,8 stoðsendingar í leik auk þess að skora 25,3 stig í leik og hitta úr 52 prósent skota sinna.

Cleveland Cavaliers tapaði fjórum síðustu leikjum sínum í deildarkeppninni og hefur aðeins unnið 9 af 22 leikjum sínum frá og með 4. mars. Frábær tölfræði LeBron James hefur ekki getað breytt því en hann spilaði reyndar ekki tvo síðustu leiki liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×