Körfubolti

LeBron James fór út á lífið í Miami strax eftir leik og spilaði ekki kvöldið eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var þreytulegur daginn eftir.
LeBron James var þreytulegur daginn eftir. Vísir/Getty
NBA-leikmennirnir ættu nú ekki að vera eyða orkunni á skemmtistöðum þessa dagana þegar mikið er undir í lokaleikjum deildarkeppninnar og úrslitakeppnin að hefjast um næstu helgi.

LeBron James og tveir bestu vinir hans í Cleveland Cavaliers liðinu voru ekki alveg á sama máli þótt að liðið þeirra væri að spila kvöld eftir kvöld og enn í baráttunni við Boston Celtics um fyrsta sætinu í Austurdeildinni.

Cleveland missti niður 26 stiga forystu í fjórða leikhluta og tapaði í framlengingu á móti Atlanta Hawks á sunnudagskvöldið. James var með þrennu og spilaði í 47 mínútur í leiknum en það dugði ekki til.

Daginn eftir var hann síðan forfallaður í tapi á móti Miami Heat og sagður vera meiddur á kálfa. Washington Post skrifar um það sem gerðist þennan sólarhring.

Fljótlega bárust þó fréttir af því að sést hafði til James ásamt þeim J.R. Smith og Tristan Thompson í næturklúbbi í Miami. Félaganir höfðu stokkið beint upp í flugvél eftir Atlanta-leikinn og heimildarmaður TMZ-síðunnar staðfesti að James, Smith og Thompson hafi verið komnir í næturklúbbinn  LIV í Miami seinna um kvöldið.

Lokaleikur LeBron James og félaga er í kvöld á móti Toronto Raptors. Hann hefur hvílt í lokaleik tímabilsins frá 2007 og það ætti ekki að koma mikið á óvart að sjá hann í borgaralegum klæðum í síðasta deildarleik tímabilsins. Fyrsti leikur úrslitakeppninnar hjá Cleveland verður annaðhvort á laugardaginn eða sunnudaginn.

Það hefur lítið gengið hjá Cleveland Cavaliers að undanförnu og þessar fréttir eru ekki að hjálpa til í pressunni sem er að myndast á NBA-meisturunum fyrir úrslitakeppnina.

Næturklúbburinn LIV kom líka við sögu þegar Odell Beckham Jr. og félagar í NFL-liðinu New York Giants fóru út á lífið eftir lokaleik deildarkeppninnar og duttu síðan út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð helgina á eftir. Ef eitthvað er að marka þá þróun mála ættu Cleveland-menn að hafa smá áhyggjur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×