Miðjumaðurinn Emmanuel Macron bar sigur úr býtum í fyrri umferð forsetakosninganna í nótt með 23,8 prósent atkvæða. Þjóðernissinninn Marine Le Pen hlaut 21,5 prósent atkvæða og munu þau tvö því mætast í seinni umferð kosninganna 7. maí næstkomandi.
Þetta er í fyrsta skipti í um sex áratugi sem hvorki Rebúblikanar né Sósíalistar, hinir hefðbundnu vinstri og hægri flokkar, fá ekki nægt fylgi til þess að komast áfram í aðalumferðina. Frambjóðandi annars flokksins; Francois Fillon fyrir franska Repúblikana varð þriðji í kosningunum með 19,9 prósent atkvæða. Þar á eftir kom Jean-Luc Mélenchon, sem fer fyrir vinstri flokknum, með 19,6 prósent.
Macron, sem er 39 ára, er spáð sigri í kosningunum og gangi þær spár eftir verður hann yngsti forseti í sögu Frakklands. Macron og Le Pen eru afar ólík en Evrópusinninn Macron hefur talað fyrir frjálslyndri efnahagsstefnu og opnu Frakklandi á meðan Le Pen hefur talað gegn ESB, gegn innflytjendum og fyrir efnahagslegri verndarstefnu.
Margir telja að það að Le Pen hafi komist upp úr fyrri umferð sé í raun sigur fyrir öfgahægrihreyfinguna sem hefur verið áberandi í heimspólitík undanfarið ár, þegar Bretar kusu Brexit og Bandaríkjamenn kusu Donald Trump sem forseta.
