Arnari Grétarssyni hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara Breiðabliks í Pepsi-deild karla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
„Stjórn knattspyrnudeildar telur að þessi ákvörðun sé óhjákvæmleg í ljósi árangurs liðsins undanfarið misseri,“ segir í fréttatilkynningunni. Þar segir að gengið verði frá ráðningu nýs þjálfara eins fljótt og kostur er.
Arnar hefur stýrt Breiðabliki frá 2014 en hann tók við liðinu af Guðmundi Benediktssyni.
Blikar enduðu síðasta tímabil illa og misstu af Evrópusæti. Þeir hafa svo farið skelfilega af stað í Pepsi-deildinni í ár og tapað báðum leikjum sínum til þessa, fyrir KA og Fjölni. Breiðablik er eitt þriggja liða sem eru án stiga í Pepsi-deildinni.
Á fyrsta tímabili Arnars við stjórnvölinn enduðu Blikar í 2. sæti Pepsi-deildarinnar og slógu stigamet félagsins í efstu deild.
Í fyrra var Breiðablik lengst af í toppbaráttu en gaf eftir á lokasprettinum og endaði í 6. sæti.
Arnar lék á sínum tíma hátt í 300 leiki fyrir Breiðablik og skoraði 61 mark. Hann varð bikarmeistari með Blikum 2009.
Arnar látinn fara frá Breiðabliki

Tengdar fréttir

Arnar: Þegar þú byrjar mótið svona eykst pressan
Þjálfari Blika var að vonum hundsvekktur eftir að hafa horft upp á 0-1 tap sinna manna gegn Fjölni í kvöld en Blikar eru stigalausir eftir tvær umferðir í Pepsi-deildinni.

Umfjöllun, einkunnir og viðtöl: Fjölnir - Breiðablik 1-0 | Fyrsti sigur Fjölnismanna
Fjölnir bar sigurorð af Breiðabliki, 1-0, í 2. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Uppbótartíminn: Umferð flautumarkanna | Myndbönd
Farið yfir 2. umferð Pepsi-deildar karla á léttum og gagnrýnum nótum.