Körfubolti

Tvær heimsþekktar íþróttakonur segja frá því að þær séu kærustupar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird (til hægri) og Megan Rapinoe skemmta sér saman á leik.
Sue Bird (til hægri) og Megan Rapinoe skemmta sér saman á leik. Vísir/Getty
WNBA-goðsögnin Sue Bird er komin út úr skápnum en hún er ein besta og sigursælasta körfuboltakona sögunnar.

Sue Bird sagði frá því að hún sé samkynhneigð í viðtali við vefsíðu espnW en það sem meira er að hún opinberaði líka samband sitt við aðra heimsþekkta íþróttakonu.

Sue Bird sagði frá því að hún og bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe væru í sambandi en þær kynntust á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 þegar þær voru báðar að keppa fyrir bandaríska landsliðið.  Bird er 36 ára en Rapinoe er 32 ára. Þær eru báðar enn að spila og spila báðar með atvinnumannaliðum í Seattle.

Sue Bird hefur unnið fögur Ólympíugull með bandaríska landsliðinu og varð tvisvar WNBA-meistari með Seattle Storm þar sem hún hefur spilað frá árinu 2002. Hún hefur einnig orðið heimsmeistari þrisvar sinnum og vann bandaríska háskólameistaratitilinn tvisvar með UConn.

„Ég er samkynhneigð og Megan er kærastan mín. Það er ekkert leyndarmál fyrir þá sem þekkja mig. Mér líður því ekki eins og ég hafi ekki lifað mínu lífi. Fólk heldur það kannski en ég var aldrei í neinum feluleik með þetta,“ sagði Sue Bird í viðtalinu.

Bird er aðeins ein af níu konum sem hafa náð því að vinna Ólympíugull, WNBA-titil og háskólatitil en þann síðastnefnda vann hún með University of Connecticut.

Megan Rapinoe varð heimsmeistari með bandaríska fótboltalandsliðinu 2015 og Ólympíumeistari í London 2012. Hún hefur skorað 31 mark í 120 landsleikjum.

Bird er langt frá því að vera fyrsti leikmaðurinn í WNBA-deildinni sem kemur út úr skápnum en hún er risastórt nafni í kvennakörfunni og ein sigursælasta körfuboltakona allra tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×