Sport

Schippers varði heimsmeistaratitilinn í 200 metra hlaupi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dafne Schippers kom í mark á 22,05 sekúndum.
Dafne Schippers kom í mark á 22,05 sekúndum. vísir/getty
Hin hollenska Dafne Schippers varði titil sinn í 200 metra hlaupi kvenna á HM í frjálsum íþróttum sem fer fram í London þessa dagana.

Schippers kom í mark á 22,05 sekúndum sem er talsvert frá hennar besta tíma (21,63 sekúndum) sem hún náði á HM í Peking fyrir tveimur árum.

Marie-Josée Ta Lou frá Fílabeinsströndinni varð önnur á 22,08 sekúndum og Shaunae Miller-Uibo frá Bahama þriðja á 22,15 sekúndum.

Emma Coburn frá Bandaríkjunum varð hlutskörpust í 3000 metra hindrunarhlaupi kvenna. Hún kom í mark á 9:02,58 mínútum. Landa hennar, Courtney Frerichs, varð önnur á 9:03,77 mínútum og Hyvin Kiyeng Jepkemoi frá Kenýu þriðja á 9:04,03 mínútum.

Pawel Fajdek er þrefaldur heimsmeistari.vísir/getty
Pólverjinn Pawel Fajdek vann sín þriðju gullverðlaun á HM í röð í sleggjukasti. Fadjek kastaði lengst 79,81 metra.

Rússinn Valeriy Pronkin kom næstur með kast upp á 78,16 metrum og landi Fajdeks, Wojciech Nowicki, endaði í 3. sæti. Hann kastaði 78,03 metra.

Brittney Reese frá Bandaríkjunum vann sigur í langstökki kvenna. Hún stökk lengst 7,02 metra. Þetta voru fjórðu gullverðlaun Reese á HM. Hún vann einnig gull á Ólympíuleikunum í London 2012.

Darya Klishina frá Rússlandi tók silfur með stökki upp á 7,00 metra og Tianna Bartoletta frá Bandaríkjunum varð þriðja. Hún stökk 6,97 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×