Íslenski boltinn

Trninic fótbraut Bjerregaard | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það kom í ljós í dag að KR-ingurinn Andre Bjerregaard er fótbrotinn eftir ljóta tæklingu KA-mannsins Aleksandar Trninic í leik liðanna á dögunum.

Þetta staðfesti Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, við Vísi nú síðdegis. Þar með er ljóst að Daninn spilar ekki meira með KR í sumar.

Bjerregaard varð að fara af velli eftir aðeins stundarfjórðungsleik eftir tæklinguna grófu frá Trninic en hana má sjá hér að ofan.

KA-maðurinn grófi var sérstaklega tekinn fyrir í Pepsi-mörkunum þar sem sérfræðingar Pepsi-markanna tóku hann engum vettlingatökum.

„Það er einhvern veginn þannig með þennan ágæta mann að maður hefur það á tilfinningunni að hver leikur sem líður án þess að hann fái rautt spjald sé illa dæmdur leikur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson um Trninic í Pepsi-mörkunum.

„Hann er ekkert eðlilega grófur. Þetta var hrottaleg tækling og við höfum séð alltof margar svona tæklingar þar sem boltinn er algjört aukaatriði og allt snýst um að fara í manninn. Annað hvort það eða maðurinn er yfirmáta klaufskur.“

Trninic er ekki bara grófur heldur gerir hann sig líka oftsinnis sekan um leikaraskap.

„Það er sorglegt að þurfa eyða tíma í þessum þætti að fjalla um þennan mann. Þetta er ótrúlegt. Þarna ertu með 95 kílóa þurs sem hrynur niður við minnsta tilfelli og reynir síðan að fótbrjóta menn,“ sagði Óskar Hrafn.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Túfa kemur Trninic til varnar

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, segir það algjört bull að miðjumaðurinn Aleksandar Trninic sé vísvitandi að reyna að meiða andstæðinga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×