Erlent

Klámútgefandi býður 10 milljónir dala í skiptum fyrir óhróður um Trump

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Larry Flynt býður fúlgur fjár fyrir óhróður um Trump.
Larry Flynt býður fúlgur fjár fyrir óhróður um Trump. Vísir/AFP
Bandaríski útgefandinn Larry Flynt býður nú allt að tíu milljónir Bandaríkadala, eða rétt rúman milljarð íslenskra króna, hverjum þeim sem býr yfir upplýsingum um Donald Trump Bandaríkjaforseta – að því gefnu að upplýsingarnar leiði til þess að forsetinn hrökklist úr embætti.

Flynt, hvers þekktasta útgáfa er klámtímaritið Hustler, auglýsir eftir téðum óhróðri í heilsíðuauglýsingu í sunnudagsblaði hins bandaríska Washington Post, að því er fram kemur í frétt AP-fréttaveitunnar.

Í forsetakosningunum í fyrra bauð Flynt eina milljón dala, eða um 104 milljónir íslenskra króna, gegn því að fá í hendurnar myndskeið eða hljóðupptökur sem sýndu fram á ólöglega eða kynferðislega hegðun af hálfu Trumps. Auglýsingin var birt í kjölfar myndbands bandaríska miðilsins Access Hollywood en í því heyrist Trump gorta sig af því að áreita konur kynferðislega.

„Ég dregst bara sjálfkrafa að fallegum konum. Ég byrja bara að kyssa þær, eins og segull. Bara kyssi þær. Ég bíð ekki einu sinni. Þegar þú ert stjarna leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er. Gripið í píkuna á þeim. Þú getur gert hvað sem er,“ heyrðist Trump segja í myndbandinu.

Sjá einnig: NBC víkur Billy Bush frá störfum vegna Trump-samtals

Í auglýsingu sinni biður Flynt um hvers kyns óhróður, sem hæfur sé til birtingar, og komi Trump enn fremur frá völdum.

Hvíta húsið hefur ekki tjáð sig um málið.


Tengdar fréttir

Hillary hryllti við að eiga við „ógeðið“ Trump

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata í bandarísku forsetakosningunum í fyrra, hryllti við þegar Donald Trump, mótframbjóðandi hennar og nú forseti Bandaríkjanna, kom inn í hennar persónulega rými í kappræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×