Trump virtist argur yfir spurningunni og gaf í skyn að hún væri ekki við hæfi svo stuttu eftir árásina og þar sem þau væru stödd í „hjarta Suður-Kóreu“.
Sjá einnig: Tvískinnungur Hvíta hússins varðandi árásir
26 létu lífið og 20 særðust á sunnudaginn þegar Devin Patrick Kelley gekk inn í baptistakirkjunna í Sutherlands Springs í Texas, vopnaður þremur byssum, þar af einum hálfsjálfvirkum riffli, og klæddur í skothelt vesti. Kelley skaut 450 skotum í kirkjunni en honum átti ekki að standa til boða að eiga skotvopn.
Bandaríska flughernum hafði láðst að greina alríkislögreglunni FBI að Kelley hafi hlotið árs dóm árið 2012 fyrir að hafa beitt eiginkonu sína og barni ofbeldi.
Ég get bara sagt þetta: Ef hann hefði ekki verið með byssu, í stað þess að vera með 26 látna, værum við með hundruð fleiri sem hefðu dáið. Það er mín skoðun. Það mun ekki hjálpa,“ sagði Trump.
Samkvæmt frétt Washington Post vitnaði Trump skömmu síðar enn einu sinni til borgarinnar Chicago og sagði ranglega að þar væru ströngustu lög varðandi byssueign í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: Segir vandamálið varða geðheilbrigði, ekki byssur
Sömuleiðis má benda á það að þegar Kelley lenti í skotbardaga við heimamanninn Stephen Willeford var hann á leið úr kirkjunni eftir árásina og var hann búinn með öll þau 450 skot sem hann tók með sér í riffil sinn. Eins og áður segir var hann þó með tvær byssur til viðbótar og notaði hann aðra þeirra til að svipta sig lífi skömmu seinna, eftir að Willeford hafði sært hann.
