Körfubolti

Skoraði körfu en var rekinn út úr húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony.
Carmelo Anthony. Vísir/Getty
Carmelo Anthony hélt að hann hefði skorað körfu og væri á leið á vítalínuna til að taka víti að auki í leik í NBA-deildinni síðustu nótt. Niðurstaðan var hinsvegar sú að kappinn var sendur í sturtu.

Carmelo Anthony var rekinn út úr húsi í þriðja leikhluta í leik Oklahoma City Thunder og Portland Trail Blazers í NBA-deildinni í gærkvöldi en  Thunder-liðið tapaði leiknum á endanum með fjórum stigum, 99-103.

Carmelo Anthony setti boltann ofan í körfuna og það leit í fyrstu út fyrir að Portland-maðurinn Jusuf Nurkic hefði brotið á honum.

Þegar betur var á gáð þá fór olnbogi Carmelo Anthony  í Jusuf Nurkic áður en hann setti boltann í körfuna.



 

Dómararnir skoðuðu atvikið aftur á sjónvarpsupptöku og dæmdu í kjölfarið óíþróttamannslega villu tvö á Carmelo Anthony sem þýddi að hans þátttöku í leiknum var lokið.

Carmelo Anthony skildi ekki neitt í neinu eftir leiki. „Ég hef ekkert að segja um þetta. Deildin mun gera það sem er rétt,“ var það eina sem kom frá Carmelo Anthony.

„Ég hef aldrei séð það áður að leikmaður setur niður körfu og fær víti að auki en er síðan rekinn út úr húsi,“ sagði Billy Donovan, þjálfari Oklahoma City Thunder eftir leikinn.

Carmelo Anthony var kominn með 15 stig og 6 fráköst á 23 mínútum þegar hann var sendur í sturtu.

Russell Westbrook, liðsfélagi Anthony hjá Thunder-liðinu var alveg til í tjá sig. „Þetta er bara vitleysa. Það er ekkert vit í þessu,“ sagði Russell Westbrook.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×