Innlent

Ráðgjafar Trump komust ekki til Íslands vegna veðurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aflýs varð Íslandsflugi herramanna tveggja sem sjást hér við hlið Donald Trump.
Aflýs varð Íslandsflugi herramanna tveggja sem sjást hér við hlið Donald Trump. Vísir/Getty
Búið er að aflýsa fundi Amerísk-íslenska verslunarráðsins með Robert Stryk og Jacob Daniels sem halda átti í dag. Mennirnir tveir, sem starfað hafa með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, komust ekki til Íslands í gær vegna óveðursins sem geisaði í gær.

Yfirskrift fundarins, sem halda átti í hádeginu í dag, var „Washington eftir tíu mánaða valdatíð Trump“. Þar áttu Stryk og Daniels að fara yfir stöðu mála í Bandaríkjunum eftir að Trump komst til valda. Áttu þeir meðal annars að varpa ljósi á það hvernig forsetinn vilji að valdatíðar sinnar verði minnst sem og hvernig ástandið i Bandaríkjunum horfi við þeim sem komu Trump til valda.

Stryk og Daniels starfa fyrir Sonoran Policy Group í Washington og hafa unnið náið með forsetanum og stjórn hans í aðdraganda kosninga og eftir. Styrk er forstjóri Sonoran og hefur áratuga reynslu af því ð starfa með stjórnmálamönnum úr röðum repúblikana.

Daniels er framkvæmdastjóri Sonoran og var kosningastjóri Trump í tíu ríkjum Bandaríkjanna í forsetakosningunum síðasta haust.

Áttu þeir að koma til landsins í gær en var flugi þeirra frá Washington aflýst vegna óveðursins sem geisaði á Suðvesturhorni landsins og víðar í gær. Tugum fluga var aflýst eða frestað vegna veðurs og komust þeir því ekki í tæka tíð fyrir fundinn.

„Vegna truflana á samgöngum í kjölfar óveðursins komast fyrirlesararnir ekki til landsins að þessu sinni. Fundinum er því aflýst en AMÍS hlakkar til að bjóða til fundar með þeim síðar í vetur, þegar þeir verða á Íslandi,“ segir í tölvupósti frá Amerísk-íslenska verslunarráðinu vegna frestunarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×