Erlent

Rannsaka ásakanir gegn ríkisstjórn Obama sem snúa að Hezbollah

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sett af stað rannsókn vegna fregna um að ríkisstjórn Barack Obama hafi komið í veg fyrir umfangsmikla rannsókn á umsvifum Hezbollah samtakann á fíkniefnamörkuðum. Það mun hafa verið gert til að halda viðræðum um kjarnorkuvopnaáætlun Íran áfram.

Sessions segist hafa áhyggjur vegna umfjöllunar sem Politico birti á dögunum um að bandarískur rannsakendur hefðu komið að mörgum læstum dyrum við rannsókn á Hezbollah en samtökin eru studd af stjórnvöldum Íran og víða skilgreind sem hryðjuverkasamtök.



„Aðgerðir sem ætlað er að rannsaka og handtaka hryðjuverkamenn sem taka einnig þátt í að ýta undir fíkniefnavandann eru í forgangi þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Sessions í tilkynningu til fjölmiðla sem send var út í gærkvöldi. Hann sagði mikilvægt að styðja rannsóknir á ofbeldisfullum samtökum sem dreifi fíkniefnum.

Meðlimir ríkisstjórnar Obama hafa þvertekið fyrir að hafa haldið aftur af rannsakendum vegna kjarnorkuviðræðnanna.

Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem Sessins skipar starfsmönnum Dómsmálaráðuneytisins að rannsaka málefni síðustu ríkisstjórnar. Í síðasta mánuði skipaði hann ráðuneytinu að rannsaka sölu fyrirtækisins Uranium One sem hefur verið umdeilt mál meðal Repúblikana og hafa hinar ýmsu samsæriskenningar sem tengjast sölunni litið dagsins ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×