Arnar Þór Sævarsson, fráfarandi sveitarstjóri á Blönduósi, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, jafnréttis- og félagsmálaráðherra. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Arnar Þór er fæddur árið 1971 og útskrifaðist úr lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1999. Hann hefur gegnt stöðu sveitarstjóra á Blönduósi frá árinu 2007.
Áður var hann aðstoðarmaður Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, þegar hann var iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra 2006-2007. Árin 2002 til 2006 starfaði Arnar sem lögfræðingur hjá Símanum og sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu árin 1999-2002.
Arnar Þór mun á næstunni sinna afmörkuðum verkefnum fyrir ráðherra samhliða störfum sveitarstjóra en kemur að fullu til starfa í velferðarráðuneytinu í vor. Arnar Þór er annar tveggja aðstoðarmanna Ásmundar. Hinn aðstoðarmaðurinn er Sóley Ragnarsdóttir en tilkynnt var um ráðningu hennar í vikunni.
Arnar Þór aðstoðar Ásmund Einar
Kristín Ólafsdóttir skrifar
