Stjórnlagaþing Venesúela hefur ákveðið að kosið verði til forseta í landinu fyrir lok aprílmánaðar.
Þingið er hliðhollt hinum umdeilda forseta, Nicolas Maduro, sem fagnar ákvörðuninni og segist reiðubúinn til að sækjast eftir embættinu á nýjan leik.
Hann tók við embættinu af Hugo Chavez árið 2013, en kjörtímabil forseta í Venesúela er sex ár.
Stjórnmálaskýrendur telja að staða Maduro sé sterk nú um stundir þrátt fyrir mikla ólgu í landinu, en stjórnarandstaðan er veikburða þar sem helstu leiðtogar hennar hafa ýmist verið fangelsaðir, meinað að bjóða sig fram eða þeir farið í sjálfskipaða útlegð.
Venesúela glímir nú við mikla verðbólgu, vöruskort og mikið ofbeldi.
