Sá sem stefndi Auði fyrir meiðyrði er Þórarinn Jónasson, eigandi hestaleigunnar, jafnan kallaður Póri í Laxnesi, en hann vildi fá eftirfarandi ummæli dæmd dauð og ómerk:
- a. „Hann sagði þetta vera dýraníð og náttúruníð af verstu sort. En hann gat ekkert gert, sama hvernig hann fjargviðraðist og skammaðist og varaði fólk við. Því hestabóndinn var í rjúkandi feitum viðskiptum og sennilega með nógu góð tök á hreppsnefndinni til að þetta fengi að viðgangast ár eftir ár- og enn þann dag í dag.“
- b. „Mikið mátt þú skammast þín, Póri í Laxnessi [sic]. Karlkjáni með dollaraseðlana upp úr rassskorunni á reiðbuxunum þínum. Skammastu þín fyrir að eyðileggja náttúru Íslands og skammastu þín fyrir að fara svona illa með hestana þína að bjóða þeim upp á strá og mold.“
- c. „Körlum og kerlingum eins og Póra í Laxnessi [sic] sem eygja ekki náttúruna heldur bara peninga. Það sem hefur lifað og dafnað í þúsundir ára er skemmt á augabragði svo firrt fólk geti keypt sér nýtt sófasett eða farið í skemmtisiglingu, gott ef ekki stofnað póstkassafyrirtæki á suðrænni eyju og sent þangað féð sem ætti með réttu að vera burðarstoð samfélagsins.“
Fyrir dóm voru kallaðir til fagaðilar á vegum landgræðslu og voru lögð fram gögn sem studd voru framburði vitna um áralanga ofbeit á svæðinu, þrátt fyrir tilmæli fagaðila um annað.
Var því ekki fallist á að gagnrýni Auðar á meðferð aðstandenda hestaleigunnar á landinu í æsku hennar séu úr lausu lofti gripin og tilhæfulaus.
Þá þóttu fullyrðingar Auðar um að ofbeit á landinu fengi enn þann dag í dag að viðgangast eiga sér stoð í staðreyndum málsins að mati Héraðsdóms Reykjavíkur. Orð hennar væru innlegg í mikilvæga þjóðfélagsumræðu. Var Auður því sýknuð af ákærunni.
Dóminn má lesa á heimasíðu dómstólanna.