Erlent

Óttast að Trump ljúgi að rannsakendum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandamenn og lögmenn Trump hafa varað hann við því að ræða við Mueller rannsakanda.
Bandamenn og lögmenn Trump hafa varað hann við því að ræða við Mueller rannsakanda. Vísir/Getty
Lögmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta vilja að hann hafni því að ræða við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, þrátt fyrir að það gæti leitt til baráttu fyrir dómstólum sem gæti tekið fleiri mánuði. Þeir eru sagðir óttast að forsetinn ljúgi að rannsakandanum eða verði missaga.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að í ljósi þess að Trump hefur ítrekað logið og sagt hluti sem stangast á þá hafi lögmenn hans áhyggjur af því að hann gæti verið ákærður fyrir að ljúga að rannsakendum gangist hann undir viðtal við Mueller.

Neiti Trump að ræða við rannsakandann gæti Mueller stefnt honum til að bera vitni fyrir ákærudómstóli. Líklegt er að það myndi leiða til langdreginnar baráttu fyrir dómstólum sem gæti endað hjá Hæstarétti Bandaríkjanna. Þá gæti það dregið pólitískan dilk á eftir sér fyrir repúblikana í aðdraganda þingkosninga í nóvember.

Trump hefur sjálfur sagt að hann hlakki til þess að ræða við Mueller og að hann væri tilbúinn að gera það eiðsvarinn.

Lögmennirnir telja aftur á móti að Trump beri ekki skylda til að svara sumum þeirra spurninga sem Mueller er sagður hafa áhuga á að spyrja. Þar á meðal eru spurningar um ákvörðun Trump að reka James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í fyrra. Telja lögmennirnir að Trump hafi haft fulla heimild til þess og því hafi Mueller ekki rétt á að spyrja spurninga um ákvörðunina.


Tengdar fréttir

Trump ætlaði að reka Mueller

Bandaríkjaforsetinn Donald Trump var kominn á fremsta hlunn með að reka sérstaka rannsakandann Robert Mueller, sem kannar tengsl kosningaliðs forsetans við Rússa, í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×