Vestmannaeyjar fá til sín handboltahátíð í mars en Handknattleiksamband Íslands hefur ákveðið að undankeppni HM 20 ára landsliðs kvenna fara fram í Eyjum.
Hér erum við að tala um stelpur sem eru fæddar 1998 og síðar. Íslenska liðið mætir þar Þýskalandi, Makedóníu og Litháen en sigurvegarinn tryggir sér farseðil á HM í Ungverjalandi sem fram fer 1. til 15. júlí.
Í íslenska liðinu eru efnilegustu handboltakonur landsins sem margar hverjar hafa slegið í gegn í Olísdeildinni.
Þjálfarar íslenska liðsins eru margreyndir afreksþjálfarar, þau Stefán Arnarson og Hrafnhildur Skúladóttir. Hrafnhildur þjálfar einmitt kvennalið ÍBV í dag en Stefán er þjálfari Fram.
Þau Stefán og Hrafnhildur unnu marga titla saman hjá Val.
Það á eftir að velja liðið en stelpurnar fá tækifæri til að sýna sig og sanna á næstu vikum.
Að sögn þjálfara liðsins í fréttatilkynningu frá HSÍ er mikið gleðiefni að fá að halda keppnina í Vestmannaeyjum sem gerir möguleika liðsins á móti sterkum andstæðingum meiri en minni.
Þýskaland og Makedónía voru bæði í lokakeppninni á síðasta Evrópumóti sem haldin var í Slóveníu, þar hafnaði hið geysisterka þýska lið í 5. sæti en Makedónía í 16. sæti.
Tímasetningar leikja eru eftirfarandi:
23. mars
Þýskaland – Litháen kl. 17.00.
Makedónía – Ísland kl. 19.00.
24. mars
Litháen – Makedónía kl. 14.00.
Ísland – Þýskaland kl. 16.00.
25. mars
Makedónía – Þýskaland kl. 10.30.
Ísland – Litháen kl. 12.30.
