Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldu Sunnu í samtali við fréttastofu. Sunna hefur legið alvarlega slösuð á sjúkrahúsi í Malaga í tvær vikur. Til stóð að flytja hana á sjúkrahúsið í Toledo síðastliðinn föstudag en það var ekki gert vegna þess að sjúkrahúsyfirvöld í Toledo gátu ekki staðfest að hægt væri að taka á móti Sunnu.
„Það er komið grænt ljós frá spítalanum sjálfum. Utanríkisráðuneytið hefur staðið sig mjög vel í því að fá það mjög skýrt fram að þeir eru tilbúnir til þess að taka á móti henni,“ segir Jón Kristinn.
Langt ferðalag er fyrir höndum hjá Sunnu en um 500 kílómetrar eru á milli Malaga og Toledo. Pantaður verður sjúkrabíll fyrir Sunnu en reiknar hann með að förin muni taka tíu til tólf tíma, sökum mikils fannfergis á Spáni.

Unnið hefur verið að því undanfarnar vikur að koma Sunnu heim til Íslands en það mál hefur strandað á því að lögreglan í Malaga hefur haldið eftir vegabréfi hennar. Samkvæmt heimildum Vísis er það vegna rannsóknarhagsmuna en Sigurður Kristinsson eiginmaður Sunnu var handtekinn við heimkomuna frá Malaga.
Hann er grunaður um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi og er í gæsluvarðhaldi. Fjórir menn hafa nú stöðu grunaðra í málinu en það varðar innflutning á amfetamíni sem smyglað var með DHL-sendingu frá Spáni í pakka sem merktur var Skáksambandi Íslands.
Vonast Jón Kristinn til þess að tíðinda dragi í vegabréfsmálum Sunnu í vikunni en segir hann að dómari muni í vikunni úrskurða um framhald málsins. Standa vonir því til að Sunna geti mögulega fengið vegabréfið í hendurnar á ný.
„Aðalmálið er þetta að hún er að komast undir læknishendur,“ segir Jón Kristinn. „Við vonum það besta að hún komist heim til Íslands, það eru grundvallaratriði.“