Erlent

Tæknigúrú verði framboðsstjóri Trumps

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Brad Parscale.
Brad Parscale. Vísir/AFP
Brad Parscale, sem sá um stafræna kosningabaráttu Donalds Trump í forsetakosningunum árið 2016, verður kosningastjóri Trumps forseta þegar hann sækist eftir endur­kjöri árið 2020. Frá þessu greindu fjölmargir bandarískir miðlar og höfðu eftir heimildarmönnum sínum.

Matt Drudge, íhaldssamur blaðamaður sem heldur utan um Drudge Report, greindi fyrst frá því að Trump hygðist sækjast eftir endurkjöri. Áður hafði hann sagt fylgjendum sínum á Twitter að von væri á óvæntum tíðindum innan úr herbúðum forseta. Tíðindin eru þó langt í frá óvænt enda hefur Sarah Sanders, blaðafulltrúi Trumps, ítrekað talað um að Trump verði forseti á næsta kjörtímabili.

Samkvæmt CNN stækkaði hlutverk Parscale í kosningabaráttunni 2016 með hverjum deginum. Fékk hann til dæmis á sína könnu að stýra birtingum á auglýsingum í sjónvarpi auk hinnar stafrænu kosningabaráttu.

Í skoðanakönnunum segjast um 55 prósent að meðaltali óánægð með störf Trumps en 41 prósent ánægt. Sé horft til skoðanakannana þar sem aðspurðir þurfa að gera upp á milli Trumps og tiltekins Demókrata mælist Trump oftar en ekki með minna fylgi.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×