Erlent

Hefnir fyrir hugverkaþjófnað með tollum á kínverskar vörur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump forseti er æfur út í Kínverja.
Donald Trump forseti er æfur út í Kínverja. VÍSIR/GETTY
Tollar sem munu skila ríkissjóði Bandaríkjanna fimmtíu milljörðum dala verða lagðir á kínverskar vörur. Þá munu Bandaríkjamenn takmarka möguleika Kínverja til að fjárfesta í bandarískum fyrirtækjum. Þetta tilkynnti Donald Trump forseti í gær. 

Í tilkynningu frá forsetaembættinu sagði að þetta væru mótvægis­aðgerðir vegna þess að Kínverjar hefðu stolið bandarískum hugverkum í áraraðir. Nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða þar sem ekki hafi tekist að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Enn fremur sagði í tilkynningunni að rannsókn á kínverskum viðskiptaháttum hafi leitt í ljós að þeir væru hreinlega ósanngjarnir. Kínverjar takmörkuðu eignarhald útlendinga á kínverskum fyrirtækjum, þeir væru ósanngjarnir í garð bandarískra fyrirtækja og kínverska ríkið styddi og stæði að tölvuárásum.

Rúmlega 1.000 vörur eru á lista forsetaembættisins yfir það sem til stendur að leggja toll á. Mun fyrirtækjum gefast kostur á að senda inn umsagnir áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Gærdagurinn snerist hins vegar um fleira en bara Kína hjá Trump forseta. John Dowd, forsprakki lögfræðiteymis forsetans varðandi rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 og meintum tengslum Rússa við framboð Trumps, sagði upp.

Bandarískir miðlar greindu frá því að Dowd hafi verið kominn á þá skoðun að Trump hundsaði flestar ráðleggingar hans. Þá var því einnig haldið fram að Trump hefði einfaldlega misst trúna á Dowd og hafi beðið hann um að segja upp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×