Innlent

Algengt að fararstjórar hafi ekki þekkingu á staðarháttum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sífellt algengara er að ferðaskrifstofur sendi erlenda fararstjóra, sem hafa enga þekkingu á staðarháttum, til Íslands með hópa af ferðamönnum. Formaður félags leiðsögumanna telur að skylda ætti seljendur hópferða til þess að bjóða upp á faglega leiðsögn. Ferðamenn stefni sér reglulega í voða vegna vanþekkingar.

Ítrekað berast fréttir af ferðamönnum sem hafa stefnt sér í voða á ferð um Ísland. Um helgina náðust myndir af ferðamanni sem hoppaði um á ísnum á Jökulsárlóni með selfie-stöng og myndavél á lofti. Þá hætti hópur ferðamanna sér út á ís sem safnast hafði saman í Langá á Mýrum en rútu hafði verið lagt skammt frá ánni.

Indriði H. Þorláksson, formaður félags leiðsögumanna, segir atburði sem þessa allt of algenga.

„Það fer held ég ekki fram hjá neinum leiðsögumanni sem fer um þessa staði að ferðamenn gæti ekki að sér, hvorki varðandi slysahættu og eins varðandi náttúruvernd. Það er að segja að viðkvæm landsvæði bíði ekki skaða.“

Telur nauðsynlegt að bæta merkingar

Algengt er að fólk án sérstakrar þekkingar stýri hópferðum um Ísland.

„Sérstaklega er áberandi vöxtur í því að erlendar ferðaskrifstofur komi með sína eigin fararstjóra eða hópstjóra sem oft á tíðum hafa enga þekkingu eða engar forsendur til að stýra ferð hér á landi.“

Indriði telur nauðsynlegt bæta merkingar á ýmsum fjölsóttum stöðum fyrir þá sem ferðast á eigin vegum. Þá telur hann að skylda ætti seljendur hópferða til þess að bjóða upp á faglega leiðsögn.

„Þar teljum við að það skorti mikið á það séu reglur eða fyrirkomulag hjá þeim sem selja ferðir að það sé tryggt að slíkar ferðir séu ætið undir leiðsögn lærðra leiðsögumanna eða annarra sem hafa þá kunnáttu og undirbúning sem þarf til að gæta alls öryggis.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×