Innlent

Neyðaráætlun á Landspítalanum vegna uppsagna ljósmæðra

Höskuldur Kári Schram og Kjartan Kjartansson skrifa
Stjórnendur Landspítalans vinna nú að neyðaráætlun vegna kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Tuttugu ljósmæður hafa sagt upp störfum og taka uppsagnirnar gildi í sumar. Lítið hefur þokast í deilunni og lýsir landlæknir stöðunni sem grafalvarlegri.

Neyðaráætlunin á að vera tiltæk ef ekki verður búið að leysa deiluna áður en uppsagnirnar taka gild. Flestar þeirra eiga að taka gildi 1. júlí. Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans, segist ekki geta gefið upp hvað felist nákvæmlega í áætluninni því undirbúningur hennar sé ekki kominn það langt á leið.

„Það er alveg klárt að við þurfum að reyna að forgangsraða sjúklingum og færa til verkefni. Hvernig það verður útfært er bara illmögulegt að segja á þessu stigi,“ segir Linda.

Erfitt er þó að færa til verðandi mæður. Linda segir ljóst að það verði þrautin þyngri að finna leiðir til að leysa málið. Leitað verði allra leiða til að tryggja öryggi sjúklinga spítalans. Biðlar hún til deiluaðila að finna lausn á deilu sinni.

Í svipaðan streng tekur Alma Dagbjörg Möller, landlæknir.

„Þetta er auðvitað mjög alvarleg staða og mikilvægt að deiluaðilar nái saman hið fyrsta því að það tapa allir þegar svona deila dregast á langinn,“ segir hún.

Samningar leysa ekki endilega allt

Ekki er þó víst að sættir ljósmæðra og ríkisins nægi til þess að koma í veg fyrir alvarlegt ástand á Landspítalanum. Áslaug Valdsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segist telja að alvara búi að baki uppsögnum ljósmæðra. Hún viti til þess að ljósmæður séu búnir að ráða sig í aðra vinnu.

„Þannig að ég sé ekki að þó að við myndum semja að það myndi endilega breyta öllu,“ segir Áslaug sem segir mikil bera á milli ljósmæðra og ríkisins.

Kjaradeildan hefur verið á borði ríkissáttasemjara frá því í febrúar en viðræður hafa engan árangur borið fram að þessu. Stuttu fundur var haldinn á mánudag  en ekki stendur til að funda aftur fyrr en á fimmtudag í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×