Erlent

Einn valdamesti maður Norður-Kóreu á leið til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Yong-chol ásamt Ivönku Trump á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu.
Kim Yong-chol ásamt Ivönku Trump á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu. Vísir/EPA
Hershöfðinginn Kim Yong-chol verður hæst setti embættismaður Norður-Kóreu sem ferðast til Bandaríkjanna í 18 ár á morgun þegar hann mætir á fund Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Kim er fyrrverandi njósnari og einn af helstu ráðgjöfum Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og spilar hann stórt hlutverk í skipulagningu mögulegs fundar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un.

Trump sagði frá komu Kim Yong-chol til Bandaríkjanna í dag og þakkaði yfirvöldum Norður-Kóreu fyrir góð viðbrögð við bréfi hans í síðustu viku, þar sem Trump lýsti því yfir að hann væri hættur við að hitta Kim Jong-un.

Fréttaveitan Yonhap frá Suður-Kóreu hefur heimildir fyrir því að Kim Yong-chol muni fljúga til Bandaríkjanna á morgun eftir fund með embættismönnum í Kína í dag. Síðasti háttsetti embættismaður Norður-Kóreu sem ferðaðist til Bandaríkjanna var Myong Rok sem hitti Bill Clinton í Hvíta húsinu árið 2000.



Kim Yong-chol er varaformaður landsnefndar Verkamannaflokks Norður-Kóreu. Reuters segja hann hafa spilað stórt hlutverk í viðræðum Norður-Kóreu við Bandaríkin og Suður-Kóreu. Hann hefur sinnt mörgum stöðum í einræðisríkinu og er sagður einn valdamesti maður þess.



Meðal annars var hann yfirmaður stærstu leyniþjónustu Norður-Kóreu og hefur hann verið einn af æðstu yfirmönnum leyniþjónusta ríkisins í nærri því þrjátíu ár. þar að auki var hann lífvörður Kim Jong-il, fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu og föður Kim Jong-un.

Yfirvöld Suður-Kóreu hafa sakað Kim um að skipuleggja árásir á herskip Suður-Kóreu og eyju árið 201 og leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa tengt hann við tölvuárásina á Sony Pictures árið 2014.

Bandaríkin hafa tvisvar sinnum beitt hann viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana Norður-Kóreu. Fyrst árið 2010 og síðan árið 2016. Það er því ljóst að hann hefur fengið undanþágu til að geta ferðast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×