Þúsundir íbúa Flórídaríkis í Bandaríkjunum hafa flúið heimili sín við ströndina en búist er við því að stormurinn Alberto nái landi þar í dag. Alberto hefur verið að sækja í sig veðrið á Mexíkóflóa undanfarna daga og stefnir nú hraðbyri í átt að Flórída og er óttast að hann geti gert þar mikinn usla.
Stormurinn var í um 165 kílómetra fjarlægð, suður af Apalachicola á miðnætti og mældist vindhraðinn þá um 105 kílómetrar á klukkustund. Þá fylgja miklar rigningar veðrinu sem gæti haft áhrif allt frá Mississippi og til Georgíu. Alberto er fyrsti stormurinn sem fær nafn á Atlantshafi þetta misserið, en yfirleitt er talað um að Fellibyljatímabilið hefjist fyrsta júní.
Mikil ferðahelgi var í Bandaríkjunum um helgina og er talið að fellibylurinn muni hafa töluverð áhrif á samgöngur í dag, samkvæmt frétt Reuters. Viðvörun var gefin út á laugardag og neyðarástandi lýst yfir í öllum 67 sýslum Flórída. Rick Scott ríkisstjóri Flórída sagði á Twitter að íbúar ættu alls ekki að hunsa tilmæli um að yfirgefa heimili sín vegna Alberto. Hann er með 5.500 viðbragðsaðila tilbúna í útkall ef þörf er á.
