Skoðun

Áin er okkur kær

Guðrún Sigurjónsdóttir skrifar
Ég las nýlega Bakþanka Benedikts Bóasar um laxeldi í þessu blaði. Ekki deilum við nú sömu skoðun hvað það varðar.

Sjálf er ég af þriðju kynslóð bænda sem hafa gætt að umhverfi Norðurár í Borgarfirði og áin er okkur kær. Hún er ekki bara falleg heldur hefur hún verið lífgjafi í sveitinni um áratugaskeið.

Ólíkt Benedikt Bóasi finnst okkur sem viljum vernda náttúrulegt lífríki fátt fyndið hvað varðar laxeldi í sjókvíum. Okkur finnst það dauðans alvara. Við viljum ekki hugsa þá hugsun til enda ef laxeldi hér fer sömu leið og í nágrannalöndum okkar, þar sem vinsælar stangveiðiár hafa til dæmis orðið fyrir óafturkræfum áhrifum vegna erfðablöndunar eldisfisks við villta laxastofna. Of hátt hlutfall af lífs­afkomu okkar kemur af stangveiðinni til þess að við getum látið það sem því ógnar óáreitt.

Laxeldismenn skýla þeir sér á bak við að eldið sé ein af grunnstoðum byggðar. Það er örugglega rétt en það heldur áfram að vera það þó svo að laxeldið fari í lokaðar kvíar á landi.

Það gleymist of oft í þessari umræðu að tekjur til eigenda bújarða af stangveiði hafa um árabil verið mikil stoð við byggð í sveitum landsins. Störf tengd stangveiðinni mynda mikilvæga atvinnugrein sem er ein af undirstöðum búsetu víða í dreifbýli Íslands.

Vísindamenn hafa alls ekki haldið því fram að sjókvíaeldi sé óhætt eins og Benedikt Bóas sagði í Bakþönkum sínum. Þvert á móti. Til dæmis liggur fyrir að vísindamenn á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins hafa sagt að sjókvíaeldi sé ein helsta ógnin sem steðjar að villtum laxastofnum. Staðreyndin er sú að mikil áhætta fylgir laxeldi í sjó og hafa vísindamenn í því sambandi bent á hættuna á erfðablönduninni en líka á að sjókvíaeldi fylgir mengun, sjúkdómahætta, lúsafaraldur og notkun eiturefna og sýklalyfja.

Því miður hefur hér á Íslandi ekki verið staðið almennilega að því að móta þessa nýju atvinnugrein. Við megum ekki endurtaka mistök annarra þjóða. Sú aðferð að ala lax í sjókvíum er ógn við náttúruna. Okkur ber að varðveita lífríkið og umgangast auðlindirnar þannig að þær nýtist okkur og afkomendum okkar um ókomin ár.

Laxeldið upp á land – og þá getum við öll verið stolt af okkar afurðum.

Höfundur er bóndi á Glit­stöðum í Norðurárdal




Skoðun

Sjá meira


×