Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og verðandi bæjarstjóri í meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra, fékk langflestar útstrikanir í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi.
Efstu tveir frambjóðendur allra lista sem buðu fram fengu samanlagt 201 útstrikun. Efstu tveir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fengu flestar þessara útstrikana.
Rósa var strikuð út á 121 kjörseðli og annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins, Kristinn Andersen, var strikaður út af 18 kjósendum flokksins. Aðrir frambjóðendur fengu allir undir tíu útstrikunum frá sínum kjósendum.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut yfirburðakosningu í Hafnarfirði og fimm menn kjörna. Samfylkingin fékk tvo menn og missti einn frá því á síðasta kjörtímabili. Framsókn, Miðflokkurinn, Bæjarlistinn og Viðreisn hlutu allir einn mann kjörinn.
