Hjálparbeiðnin kom símleiðis frá fólkinu um klukkan fjögur í nótt og þar sem ekki var nákvæmlega vitað hvar fólkið var statt voru leitarflokkar bæði sendir upp frá Skógum og úr Þórsmörk.
Þyrla Landhelgisgæslunar var líka send austur með björgunarmenn, en vegna veðurs gat hún ekki nálgast fólkið og tekið það um borð.
Magnús Þór Einarsson, björgunarsveitarmaður frá Hvolsvelli, segir að ferðafólkið hafi verið orðið mjög blautt og hrakið þegar komið var að þeim.
„Þau voru við það að vera bara örmagna, það mætti kalla það þannig. Þau voru inni í tjaldi, það var reyndar alveg á floti þannig að það blotnaði inn til þeirra þannig að þau voru þannig séð bara mjög illa haldin,“ segir Magnús.

„Um leið og við vorum búin að gefa þeim hlý og þurr föt þá brögguðust þau ágætlega. Síðan tókum við saman búnaðinn þeirra og löbbuðum með þau einhverja 500 metra í farartæki og það gekk bara mjög vel.“
Hvernig var færið þarna uppi?
„Það var ágætis færi. Við vorum nú ekki mikið í snjó en það sem við löbbuðum í snjó var þannig séð létt, við sukkum ekki neitt eða neitt þannig. Það var ágætis rok og talsverð úrkoma inn á milli líka þannig að það var blautt og kalt bara, ekki nema ein, tvær gráða kannski.“
Komið var með fólkið til Skóga um tíuleytið að sögn Magnúsar og þaðan var haldið áfram til byggða.
„Þau eru eiginlega bara búin að vera að leggja sig á leiðinni niður. Þau eru alveg búin á því líkamlega og á sál held.“
