Færsla Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um skólasetningar grunnskóla landsins vakti mikla athygli í gær. Í færslunni sagði Þorbjörg að sér væri fyrirmunað að skilja hvers vegna grunnskólar væru ítrekað settir í miðri viku þegar engin námskeið eru í boði fyrir börn.

Svörin í atvinnulífinu en ekki í skólastarfinu
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir umræðuna koma upp á hverju einasta ári, að hausti og svo aftur á vorin. Hún segir að togstreituna megi að miklu leyti rekja til breytinga á vinnumarkaði, og þá helst til aukinnar atvinnuþátttöku beggja foreldra. Hún gagnrýnir jafnframt að kennarar séu gerðir ábyrgir fyrir millibilsástandinu sem skapast síðustu dagana fyrir skólasetningar- og slit.„Ég myndi þá leggja til að þetta væri eitt af því sem horft yrði til í kjarasamningum fram undan, að foreldrar hefðu sveigjanlegri tíma til að geta sinnt börnum sínum á þessum tímabilum þegar er verið að fara úr einu skólastigi yfir í annað, sem dæmi. Að haga því þannig að sumarfrí sem foreldri vinnur sér inn sé ekki það eina sem er í boði fyrir vinnandi fólk með börn á þessum aldri,“ segir Þorgerður.
„Ég held að svörin séu í atvinnulífinu. Svörin liggja ekki í skólastarfinu sem slíku vegna þess að skólarnir vinna undir lögbundnum skyldum um 180 skóladaga. Það hefur einnig sýnt sig að skóladagafjöldi íslenskra barna er á pari við önnur lönd sem við berum okkur saman við.“
Af hverju eru skólasetningar í miðri viku?
Vísir sendi fyrirspurnir á þrjú sveitarfélög vegna gagnrýni Þorbjargar í gær. Voru sveitarfélögin innt eftir því af hverju starf í grunnskólum hefjist í miðri viku en ekki í upphafi viku.Reykjavík
Í svari Reykjavíkurborgar, stærsta sveitarfélags landsins, kemur fram að skóladagar á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní ár hvert skuli vera 180 talsins, líkt og kveðið er á um í kjarasamningi sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands. Í flestum tilvikum sé ekki hægt að kalla kennara til starfa fyrr en í kringum 15. ágúst og þá taki við fimm starfsdagar áður en kennsla hefst, jafnan í kringum 22. ágúst.
„Skólasetningin 22. ágúst hefur því fallið á flesta virka daga vikunnar á undanförnum árum í grunnskólum borgarinnar,“ segir jafnframt í svari Reykjavíkurborgar. Þá er einnig bent á að grunnskólar Reykjavíkur hafi faglegt sjálfstæði og ákveði sjálfir tímasetningu fyrir skólasetningar og mætingar bekkjardeilda eða árganga fyrsta skóladaginn.

Í svari frá Kópavogsbæ segir að grunnskólar í sveitarfélaginu hefji göngu sína fimmtudaginn 23. ágúst, degi síðar en skólar í Reykjavík. „Grunnskólar hafa frelsi til að velja hversu margir starfsdagar eru fyrir skólasetningu og hversu margir eftir skólaslit. Það verða því færri dagar í júní að loknum skólaslitum.“
Akureyri
Á Akureyri ákveður fræðsluráð Akureyrarkaupstaðar að öllu jöfnu í mars ár hver hvenær grunnskólar hefjast að hausti, að fenginni tillögu skólastjórnenda. Þá er einnig vísað í kjarasamning grunnskólakennara og þannig miðað við að ekki megi kalla kennarana til starfa eftir sumarleyfi fyrr en 15. ágúst. Með tilliti til þess verður skóli settur á Akureyri þriðjudaginn 21. ágúst.
„Ekki hefur borist ósk frá fulltrúum foreldra í skólaráðum grunnskólanna um ákveðinn dag sem upphafsdag skólaársins en í skólaráðunum er vettvangur fyrir skoðanaskipti og tillögur að breytingum á skóladagatali næsta árs þegar það er í vinnslu. Það sem hentar einum þetta árið þarf ekki að henta þeim sama það næsta né öðrum foreldrum. Engin haldbær rök liggja fyrir um á hvaða vikudegi best er fyrir börnin eða foreldra þeirra að hefja skólagöngu á haustin,“ segir enn fremur í svari Akureyrarbæjar.