177 metra langt draugaskip rak á strendur Mjanmar í dag. Yfirvöld leita nú að vísbendingum um hvaðan skipið geti hafa komið. BBC greinir frá.
Það voru sjómenn sem komu fyrst auga á skipið undan ströndum Yangon, stærstu borgar landsins, á dögunum.
Skipið ber nafnið Sam Ratulangi PB 1600 og er skráð í Indónesíu. Eftir að skipið strandaði fyrr í dag fóru sérfræðingar á vegum mjanmarska sjóhersins um borð í skipið til að leita að vísbendingum um hvaðan skipið hafi komið.
Í ljós kom að skipið, sem er flutningaskip, var galtómt og enginn sjómaður um borð. Í samtali við fjölmiðla í Mjanmar segir formaður sjómannasambands Mjanmar að svo virðist sem að skipið dularfulla sé í ágætu standi, þrátt fyrir að vera mannlaust
Grunar hann að skipið hafi verið yfirgefið nýlega en samkvæmt vefsíðunni Marine Traffic, sem skráir för skipa um heiminn, var síðasta staðsetnings skipsins skráð árið 2009, þá undan ströndum Taívans.
Risastórt draugaskip rak á strendur Mjanmar
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
