Innlent

Kennaranemum fjölgar um tugi prósenta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kennaranámið virðist heilla.
Kennaranámið virðist heilla. Vísir/Vilhelm
Svo virðist sem áhugi á kennarastarfinu fari vaxandi, ef marka má aðsóknartölur í Háskóla Íslands. Alls munu 86 prósent fleiri hefja nám í leikskólakennarafræðum nú í haust en haustið 2016. Í grunnskólakennarafræði hefur nýnemum fjöglað um 61 prósent á sama tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands er heildarnemendafjöldinn svipaður og við upphaf síðasta skólaárs, eða á þrettánda þúsund. Endanlegur fjöldi liggur þó ekki fyrir fyrr en síðla októbermánaðar, þegar frestur til til úrskráningar úr námskeiðum og prófum rennur út.

Alls hefja 3.400 nýnemar nám í skólanum í ár, en það er 15 prósent aukning fá því í fyrra. Nýnemum fjölgar í flestum deildum fræðasviða skólans.

Fjölmennustu námsleiðirnar á bakkalárstigi eru sem fyrr viðskiptafræði og sálfræði en um 240 nemendur hefja nám í þessum greinum í haust. Þá eru rúmlega 250 skráðir til náms í íslensku sem öðru máli, ýmist til grunndiplómu og BA-gráðu. Það eru um 50 fleiri en í fyrra.

Að sama skapi hefja tvöfalt fleiri nám við Matvæla- og næringarfræðideild en í fyrra, eða 40 manns. Einnig sækja fleiri í verkfræðigreinar en á síðasta námsári. til að mynda hefja tæplega 110 nám í véla- eða iðnaðarverkfræði og um 60 í rafmagns- og tölvuverkfræði og tæknifræði. Þá eru nýir tölvunarfræðinemar um 150 og 55 hefja nám í hugbúnaðarverkfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×