Erlent

Tekist á um fjórðu ásakanirnar í garð Kavanaugh

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brett Kavanaugh er á hálum ís.
Brett Kavanaugh er á hálum ís. Vísir/Getty
Dómsmálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings spurðist fyrir um enn einar ásakanir í garð Brett Kavanaugh eftir að nafnlaust bréf barst þingmanni þess efnis að hæstaréttardómaraefnið hefði kynferðislega áreitt konu í Washington árið 1998. Demókratar telja mögulegt að Repúblikanar hafi lekið efni bréfsins til þess að láta aðrar ásakanir í garð Kavanaugh líta verr út.

Fréttastofa NBC greinir frá og segir að nafnlaust bréf hafi borist öldungardeildarþingmanninum og repúblikanum Cory Gardner. Í bréfinu segir bréfritari að Kavanaugh hafi ýtt vinkonu bréfritara upp að vegg og hagað sér á kynferðislegan hátt í garð hennar.

Segir bréfritari að fjórir einstaklingar hafi orðið vitni að hinni meintu árás en að enginn þeirra vilji stíga fram undir nafni. Í frétt NBC segir að könnun þingmanna í dómsmálanefnd hafi falið það í sér að hringja í Kavanaugh og spyrja hann út í ásakanirnar.

„Við erum að tala um nafnlaust bréf um nafnlausa persónu og nafnlausan vin. Þetta er fáránlegt,“ sagði Kavanaugh í símtalinu.

Sjá einnig:„Ég er dauðhrædd“

Talsmaður formanns nefndarinnar, repúblikans Charles Grassley, segir að þingnefndin taki bréfið ekki alvarlega þar sem útilokað sé að sannreyna efni bréfsins þar sem ásakanirnar séu gerðar í skjóli nafnleyndar.

Heimildarmaður NBC innan raða Demókrata segir að nefndarmenn flokksins séu ekki sáttir við hvernig Repúblikanar rannsökuðu málið og telja þeir að rannsaka ætti ásakanirnar frekar. Þá útiloka þeir ekki að efni bréfsins hafi verið lekið af Repúblikönum í tilraun til þess að láta ásakanir þriggja annarra kvenna, sem allar hafa komið fram undir nafni, líta verr út.

Búist er við að dagurinn í dag geti reyndst afdrifaríkur fyrir vonir Kavanaugh um að setjast í Hæstarétt Bandaríkjanna. Í dag mun Christine Blasey Ford, sem sakað hefur hann um kynferðislegt ofbeldi, koma fyrir þingnefndina og svara spurningum þingmanna klukkan tvö í dag að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

„Ég er dauðhrædd“

„Ég er ekki hér í dag vegna þess að ég vill það. Ég er dauðhrædd,“ er meðal þess sem Christine Blasey Ford mun segja er hún les yfirlýsingu fyrir framan dómsmálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×