Viðskipti innlent

Nýr gjaldmiðill ekki á dagskrá verkalýðshreyfingarinnar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Varaformaður Viðreisnar segir það furðu sæta hvað verkalýðshreyfingin tali lítið um kostnaðinn sem fylgi krónunni. Forseti ASÍ segir að umboð sitt sé afmarkað af ályktunum landsþings ASÍ en þar er ekki minnst einu orði á evru eða stöðugan gjaldmiðil.

Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marels sagði í viðtali við fréttastofuna sem tekið var í tengslum við uppgjör Marels að þeir hópar í samfélaginu sem töpuðu mest á krónunni þyrftu að leiða umræðu um gjaldmiðilsmálin. 

„Það er ljóst ef við förum í skoðanakannanir og þess háttar að þá vill meirihluti heimila í landinu og meirihluti smærri fyrirtækja halda í krónuna. Hins vegar er það að mínu mati dýrast fyrir smærri fyrirtæki og almenning í landinu að halda í krónuna. Það gerist ansi leiðigjarnt að þeir sem eru að reka alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi séu ávallt að tala um íslensku krónuna og að við þurfum að breyta henni. Mér finnst að þeir sem hafa mesta hagsmuni af því að fá lægri viðskiptakostnað, lægri vaxtakostnað, hafa mynt þannig að þú getir gert þín útflutningsplön en lítil íslensk iðnfyrirtæki geta varla hafið útrás í dag því óstöðugleikinn í krónunni gagnvart erlendum myntum er töluverður, að þeir hópar ættu fremur að berjast fyrir því heldur en að við, forkólfar í alþjóðlegum fyrirtækjum hér á Íslandi, séum ávallt að skipta okkur af innankrónikumálum í rauninni. Hins vegar er það mín skoðun að kostnaður við myntkerfið er allt of mikill sem sést kannski best í því að almenningur er að borga þrisvar sinnum sína íbúð í vaxtakostnað á meðan þú ert að borga einum og hálfu sinni íbúðina í vaxtakostnað í Svíþjóð, sem dæmi,“ sagði Árni Oddur.

Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar furðar sig á því hvað stéttarfélögin í landinu tala lítið um kostnaðinn af krónunni. „Meðal fjögurra manna fjölskylda greiðir sennilega um áttatíu til hundrað þúsund krónum meira en sambærileg fjölskylda á hinum Norðurlöndunum í húsnæðisvexti, að minnsta kosti,“ segir Þorsteinn.

Hagsmunir fjölskyldna eru hagsmunir launafólks

Hagsmunir fjölskyldna eru í reynd hagsmunir launafólks. Lengi vel var aðild að myntsamstarfinu um evruna eitt af helstu baráttumálum ASÍ. Þetta hefur breyst enda er ekkert minnst á krónuna eða stöðugan gjaldmiðil í ályktunum landsþings ASÍ.

„Alþýðusamband Íslands og þetta kjörtímabil sem við erum í núna sækir sitt vald og heimildir til ákvarðana sem voru teknar á þingi ASÍ og þar voru gjaldmiðlamálin ekki á dagskrá,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ. Hún segir að forysta ASÍ sé að fjalla um brýnni mál eins og skatta- og húsnæðismál sem hafi verið sett á dagskrá núna.

Þorsteinn Víglundsson segir að gjaldmiðilsmálin séu föst í umræðu um að bann við verðtryggingu á sama tíma og óverðtryggðir vextir séu svimandi háir hér á landi. En einn helsti baráttumaður fyrir afnámi verðtryggingar er einmitt Vilhjálmur Birgisson nýkjörinn varaforseti ASÍ.

„Það væri beinlínis bjarnargreiði fyrir íslensk heimili að banna verðtryggingu og skilja okkur eftir með svimandi háa óverðtryggða vexti,“ segir Þorsteinn. Hann segir mikilvægt að horfa ískalt á stöðuna í ljósi veikingar á gengi krónunnar að undanförnu en hún hefur fallið um tíu prósent á skömmum tíma. „Við þurfum að spyrja: Er krónan þess virði að halda í hana? Og hverjir eru valkostir okkar?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×