Erlent

Dregur úr halla Skakka turnsins

Atli Ísleifsson skrifar
Framkvæmdir við byggingu turnsins hófust 1173. Þúsundir ferðamanna sækja turninn heim á hverju ári.
Framkvæmdir við byggingu turnsins hófust 1173. Þúsundir ferðamanna sækja turninn heim á hverju ári. Vísir/Frank Bienewald
Nokkuð hefur dregið úr halla Skakka turnsins í Pisa á síðustu árum og hefur verið haft á orði að hann kunni að standa frammi fyrir tilvistarkreppu.

Talsmaður eftirlitshóps turnsins, sem hefur yfirumsjón með endurbótum á turninum, segir turninn nú „stöðugan og dragi nú hægt og rólega úr halla“ hans.

Í frétt BBC kemur fram að dregið hafi úr halla hins 57 metra háa turns á síðustu tveimur áratugum. „Það er eins og turninn hafi yngst um tvær aldir,“ segir prófessorinn Salvatore Settis sem fer fyrir eftirlitshópnum.

Var lokað 1990

Turninum var lokað fyrir ferðamönnum árið 1990 og var það í fyrsta sinn í átta hundruð ár sem grípa þurfti til slíkra ráðstafana. Var óttast að turninn myndi láta undan þunganum og hrynja, en á þeim tíma hallaði hann um 4,5 metra.

Unnið var að endurbótum á árunum 1993 til 2001 og tókst þá að draga úr hallanum um 45 sentimetra. Nam kostnaðurinn um 32 milljarða króna.

Framkvæmdir við byggingu turnsins hófust 1173 og tók hann að halla um fimm árum síðar, en jarðvegurinn undir turninum reyndist misharður undir norðurenda og suðurenda hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×