Erlent

Trump úthúðar fyrrum utanríkisráðherra á Twitter

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump og Tillerson þegar allt lék í lyndi.
Trump og Tillerson þegar allt lék í lyndi. Chris Kleponis-Pool/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi í kvöld frá sér tíst þar sem hann fór ófögrum orðum um Rex Tillerson, fyrrum utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.

Trump lét Tillerson, sem var forstjóri olíu- og gasfyrirtækisins ExxonMobil þar til hann tók sæti sem utanríkisráðherra snemma ársins 2017, víkja sæti úr ríkisstjórninni í lok mars á þessu ári. Við embættinu tók Mike Pompeo, sem var forstjóri leyniþjónustunnar CIA.

Í tístinu sem um ræðir segir Trump að Pompeo sé að standa sig frábærlega í starfi og segist stoltur af honum. Aðra sögu sé að segja um Tillerson.

„[Tillerson] hafði ekki þá vitsmunalegu getu sem til þurfti. Hann var grjótheimskur og ég átti að losa mig við hann fyrr. Hann var fáránlega latur,“ er meðal þess sem segir í tísti frá Trump. Hann bætir svo við að nú horfi allt öðru vísi við í utanríkismálum Bandaríkjanna.

Ætla má að tístið séu viðbrögð Trump við viðtali við CBS sem birtist í gærkvöldi en þar sagði Tillerson forsetann vera agalausan. Þá sakaði hann Trump um að vilja ekki lesa undirbúningsgögn sem væru skrifuð fyrir hann og sagði hann forsetann ekki vilja kynna sér málefni ítarlega. Þá sagði hann forsetann einnig hafa reynt að framkvæma „ólöglega hluti,“ eins og Tillerson orðaði það sjálfur.

„Forsetinn sagði oft: Hér er það sem ég vil gera og ég vil gera það svona. Ég sagði þá við hann: Herra forseti, ég skil hvað þú vilt gera en þú getur ekki gert það svona. Það er ólöglegt,“ sagði Tillerson á fjáröflun í gær.

Við það yrði Trump pirraður út í Tillerson. Hann sagðist þá hafa sagt Trump að þeir gætu tekið slaginn á þingi og fengið lögunum breytt. Það væri ekkert að því og ef forsetinn vildi það myndi hann reyna.

Viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×