Erlent

Trump skipar nýjan varnar­mála­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Patrick Shanahan er 64 ára gamall og starfaði lengi hjá Boeing.
Patrick Shanahan er 64 ára gamall og starfaði lengi hjá Boeing. EPA/ERIK S. LESSER
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skipað aðstoðarvarnarmálaráðherrann Patrick Shanahan sem nýjan starfandi varnarmálaráðherra. Shanahan fyllir þar með skarð Jim Mattis sem sagði af sér fyrr í vikunni.

Í afsagnarbréfi sínu gaf Mattis, sem tók við embættinu í byrjun árs 2017, í skyn að hann og Trump hafi ekki verið sammála þegar kom að ákvörðun Trump að draga hermenn Bandaríkjanna í skyndi frá Sýrlandi.

Shanahan, sem starfaði lengi hjá flugvélaframleiðandanum Boeing, mun taka við embættinu í ársbyrjun. „Patrick er með langan afrekalista,“ segir Trump í tísti sínu. „Hann verður frábær!“. Með ákvörðuninni flýtir Trump afsögn Mattis, en upphaflega stóð til að Mattis myndi láta af störfum í febrúar.

Samband Trump og Mattis hafði verið stirt um nokkurn tíma og hafa bandarískir fjölmiðlar sagt frá því að forsetinn hafi reglulega farið gegn ráðleggingum ráðherrans. Þannig var Mattis mótfallinn því að senda hermenn að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Mattis var áður talinn einn af áhrifamestu ráðgjöfum Trump.


Tengdar fréttir

Mattis hættir sem varnarmálaráðherra

Samband hans og Trump hefur þó beðið hnekki að undanförnu og var hann verulega andsnúinn ákvörðun Trump að draga hermenn Bandaríkjanna í skyndi frá Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×