Innlent

Fundað þrisvar í vikunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá fundi félaganna hjá ríkissáttasemjara.
Frá fundi félaganna hjá ríkissáttasemjara. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
Samninganefndir í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins munu funda þrisvar í vikunni hjá ríkissáttasemjara. Formaður VR segir að á döfinni séu mál sem undirnefndir hafi lokið að ræða.

„Við erum að fara að renna yfir hluti sem snúa ekki að stærstu kröfum okkar. Þar má nefna veikindaréttinn og slysakaflann. Þetta eru ekki stærstu bitbeinin heldur mál sem undirhópar hafa vísað til okkar til afgreiðslu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Eftir standa enn stærstu kröfur félaganna fjögurra sem snúa meðal annars að skattbreytingum, húsnæðiskerfinu og launaliðnum. Í liðinni viku voru hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á skattkerfinu kynntar.

„Viðbrögðin við þeim voru nokkuð fyrirsjáanleg. Við munum ræða þær og húsnæðistillögurnar á vettvangi ASÍ óháð því hvort félög hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara eða ekki,“ segir Ragnar Þór.

Fundað verður í húsakynnum sáttasemjara í dag og síðan aftur á miðvikudag og föstudag.




Tengdar fréttir

Segir nýjan takt í viðræðunum

Framkvæmdastjóri SA segir nýjan takt kominn í kjaraviðræður en fyrirhugaðir eru þrír samningafundir milli deiluaðila hjá ríkissáttasemjara í næstu viku. Borgarstjóri fagnar því að húsnæðismál séu í forgrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×