Mótmæli gegn ríkisstjórn Madúró og óeirðir á götum Venesúela er engin nýjung en undanfarna daga hafa mótmæli og óeirðir þar magnast til muna.
Í nótt var í nógu að snúast fyrir lögreglu og herinn vegna mótmælenda en meðal annars var eldur lagður að styttu af fyrrverandi forseta landsins Hugó Chavez. Fjórir hafa látist í óeirðum í nótt og í dag.
Hundruð þúsunda mótmæltu víða um landið í dag en stuðningsmenn Maduro fjölmenntu einnig. Með vaxandi þrótti mótmælenda freistar stjórnarandstaðan í Venesúela þess að taka völdin af forsetanum. Þau telja forsetann í reynd valdaræningja sem hefur ekki verið kjörinn í lýðræðislegri kosningu.

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna hefur þá, líkt og Donald Trump, lýst yfir stuðningi við Guaidó og segir Madúró sitja umboðslausan í embætti forseta. „Bandaríkin taka höndum saman með öðrum frelsiselskandi þjóðum í að viðurkenna þjóðþingið sem síðustu lýðræðiskjörnu stofnunina í landinu ykkar,“ sagði Mike Pence í ávarpi til venesúelsku þjóðarinnar í gær. „Þetta er eina samkundan sem er kjörin af ykkur, fólkinu. Bandaríkin styðja hugrakka ákvörðun Juan Guaidó, forseta þingsins, til að treysta stjórnarskrárbundin völd þingsins í sessi, lýsa Madúró sem valdaræningja og koma á fót starfsstjórn.“