Bruno Rodriguez, utanríkisráðherra Kúbu, hafnar fullyrðingum ríkistjórnar Donald Trump Bandaríkjaforseta um að Kúba sé með herlið í Venesúela og segir slík ummæli vera hluta af lygaherferð Bandaríkjanna til að undirbúa innrás í landið. Þá kallar Rodriguez eftir því að Bandaríkin færi sönnur fyrir fullyrðingum sínum.
Trump sagði í ræðu sinni í Miami á mánudag að Nicolas Maduro væri ekki föðurlandsvinur heldur einungis strengjabrúða Kúbu. Þá fullyrti hann að herlið Kúbu færi með stjórn hersins í Venesúela og þeir ættu einnig eigið herlið í landinu.
Rodriguez hafnaði þessu á blaðamannafundi í dag og sagði þeir tuttugu þúsund Kúbverjar sem dveldu í Venesúela væru óbreyttir borgarar, margir hverjir heilbrigðisstarfsmenn. Kúba hefur verið einn helsti stuðningsaðili ríkisstjórnarinnar í Venesúela frá hinni svokölluðu Bólivarísku byltingu sem hófst undir stjórn Hugo Chavez árið 1998.
Ríkisstjórn Trump hefur þrýst á Nicolas Maduro til þess að stíga til hliðar og lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, forseta þings Venesúela. Þá hafa fleiri lönd fylgt á eftir og lýst yfir stuðningi við Guaidó, þar á meðal Ísland.
