Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð til verkalýðsfélaganna fjögurra sem eru á vettvangi ríkissáttasemjara á miðvikudag. Það fól í sér að laun upp að sex hundruð þúsund krónum hækkuðu um 20 þúsund krónur á ári næstu þrjú árin en laun þar yfir hækkuðu um 2,5 prósent.
Efling, Verkalýðsfélögin á Akranesi og í Grindavík og VR svöruðu síðan með gagntilboði í dag. Nú er lægsti kauptaxti 266 þúsund krónur en lágmarkslaun 300 þúsund krónur. Verkalýðsfélögin vilja eyða öllum töxtum undir lágmarkslaunum og fá krónutöluhækkanir fyrir alla frá 300 þúsund krónum þannig að lægstu laun verði 425 þúsund krónur á mánuði í lok þriggja ára samningstíma. Það er að jafnaði um 41.700 króna launahækkun á ári, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vonbrigði að gagntilboðinu hafi verið hafnað, enn sé langt í milli aðila.
„Þannig að lengra verður ekki gengið á milli þessara aðila í bili. Þannig að aðkoma stjórnvalda mun ráða úrslitum um framhaldið.

ASÍ fundar með ríkisstjórn á þriðjudag
Verkalýðsfélögin leggja mikla áherslu á aðkomu stjórnvalda til að leysa gerð nýrra kjarasamninga. Stjórnvöld munu funda innan sinna eigin raða á mánudag og síðanmeð forsetateymi Alþýðusambandsins á þriðjudag. Næsti samningafundur verður síðan á fimmtudag í næstu viku og þá gæti sorfið til stáls. „Minn skilningur á aðkomu stjórnvalda hefur verið á þann veg að forsenda fyrir aðkomu stjórnvalda að úrlausn kjarasamninganna sé sú að aðilar séu við það að ná saman,“ segir Halldór Benjamín.En það er alls ekki staðan eins og hún er eftir fundinn í dag. Ragnar Þór segir fundinn næst komandi fimmtudag því geta orðið úrslitafund. „Boltinn er hjá stjórnvöldum. Við breytum því ekki. Ef aðkoma stjórnvalda verður ekki með þeim hætti sem við höfum verið að óska eftir er augljóst í hvað stefnir og við erum klár í slaginn.“
Er þá komið að þeim tímamótum í viðræðunum að þið þurfið að fara að íhuga aðgerðir?
„Já, það má segja það,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.