Markmið sveitarstjórnanna beggja megin við Tröllaskaga er að í næstu samgönguáætlun verði gert ráð fyrir frumathugun á mögulegu leiðarvali sem og athugun á samfélagslegum áhrifum ganganna.
Ýmsir valkostir hafa verið ræddir. Þar á meðal göng frá Hofsárdal yfir í Barkárdal eða nokkrar útfærslur úr Hörgárdal yfir í Hjaltadal. Með göngum undir Tröllaskaga mætti að mati sveitarstjóra Skagafjarðar tengja mun betur saman helstu þéttbýliskjarna en nú er fyrir hendi, líkt og sjá má á meðfylgjandi korti.
„Ég held að áhrifin hér í Skagafirði verði gríðarleg og reyndar líka í Eyjafirði og fyrir Norðurland allt. Þarna er verið að stytta vegalengdir á milli stærstu þéttbýliskjarna á Norðurlandi, Akureyrar-Sauðakróks, Akureyrar-Húsavíkur sem er nú þegar komið og við erum að tengja helstu þéttbýliskjarna saman innbyrðis eins og Blönduós, Sauðárkrók, Akureyri og Húsavík,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Ekki boðlegt að fæða börn á fjallvegum
Sigfús segir að Tröllaskagagöng séu líka brýnt heilbrigðismál en þau hefðu það líklega í för með sér að þjóðvegur 1 lægi ekki lengur um Vatnsskarð eða Öxnadalsheiði.„Sem hafa verið erfiðir farartálmar og við höfum lent í því hér í Skagafirði eftir að fæðingarþjónusta var aflögð á heilbrigðisstofnunni að konur hafa lent í því að fæða börn upp á fjallvegum. Það er ekki boðlegt á 21. öldinni,“ segir Sigfús Ingi.
Víða um land er gerð krafa um jarðgöng og ekki hlaupið að því að fá fjármagn í slíka framkvæmd. Sveitarstjórnarmenn á Akureyri og í Skagafirði telja þó að mögulega geti fyrirhuguð lög um veggjöld flýtt fyrir.
„Ef að það kemur til einhvers konar gjaldtaka í samgöngumálum þá getur verið að menn hafi úr meira fjármagni að spila og þessi göng komist þá framar á dagskrá,“ segir Sigfús Ingi.
Hinir sömu sveitarstjórnarmenn gera sér þó grein fyrir því að langt geti verið í að göngin verði að veruleika.
„Kannski ekki á næsta ári en eitt skref í einu og það er rétt að hefja undirbúninginn, kanna það hversu fýsilegur kostur þetta og hversu arðbær hann er.“