Fjármálaráðherra hyggst breyta framlögum til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ráðherrar fjármála og sveitarstjórnarmála hafa ekki veitt fréttastofu viðtal vegna málsins. Samkvæmt útreikningi Sambands íslenskra sveitarfélaga þýðir þetta að fjárframlög til sveitarfélaga verða skert um ríflega þrjár milljarða króna á næstu tveimur árum.
Framkvæmdastjóri sambandsins sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hugmyndir ríkisins hljóti að vera fljótfærnisleg mistök sem verði leiðrétt. Hann benti á að niðurskurðurinn kæmi verst niður á sveitarfélögum á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, heyrði fyrst af tillögum fjármálaráðherra í fjölmiðlum.
„Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, við heyrðum af þessu fyrst í gær í fréttum og það er með ólíkindum að þetta skuli koma þannig í fangið á okkur,“ segir Guðmundur.
Forsendubrestur vegna þjónustu við fatlaða
Guðmundur nefnir sem dæmi að nú þegar dugi framlög ríkisins ekki öllum sveitarfélögum svo þau geti staðið undir lögbundinni þjónustu við fatlað fólk eftir að málaflokkurinn fluttist frá ríki til sveitarfélaga.„Ef við tökum dæmi fyrir sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ þá er um 30 milljóna króna gat að ræða á hverju einasta ári, þar sem framlög ríkisins hafa ekki haldið í við kostnaðinn og þá aðallega launakostnað,“ segir Guðmundur.
Hann segir það borðleggjandi að ef framlög ríkis til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði skert séu forsendur brostnar vegna flutnings málaflokksins.