Meiriháttar fölnun á Kóralrifinu mikla við Ástralíu árin 2016 og 2017 hefur leitt til þess að ungum kóröllum hefur fækkað um 89%. Vísindamenn segja að hlýnun hafsins hafi valdið hamförunum í kóralrifinu.
Um tveir þriðju hlutar Kóralrifsins mikla á um 1.500 kílómetra löngum kafla skemmdust þegar hlýindin í hafinu ollu meiriháttar fölnun kóralla tvö ár í röð. Nú er talið að fölnunin þessi ár sé ástæða þess að lítil nýliðun varð í rifinu í fyrra. Grein um rannsókn á nýjum kóröllum í rifinu í fyrra birtist í vísindaritinu Nature í dag.
„Dauðir kórallar búa ekki til börn,“ segir Terry Hughes, prófessor við James Cook-háskóla í Queensland í Ástralíu og aðalhöfundur greinarinnar, við breska ríkisútvarpið BBC.
Vísindamennirnir telja að rifið geti jafnað sig á fimm til tíu árum eigi frekari fölnun sér ekki stað í millitíðinni. Það er þó nánast óhugsandi vegna áframhaldandi hlýnun jarðar. Kórallar eru viðkvæmir fyrir hitastigsbreytingum. Þegar sjórinn hlýnar bregðast þeir við með því að losa sig við þörunga sem þeir eiga í samlífi við og fölna þannig. Vari hlýindin lengi geta kórallarnir drepist.
Kóralrifið mikla er stærsta kóralrif í heimi og er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er gríðarlega mikilvægt vistkerfum í hafinu og er líffræðilega fjölbreyttasti staðurinn á heimsminjaskránni.
Andrew Baird, annar höfunda greinarinnar, segir staðbundnar aðgerðir til að bjarga rifinu dugi skammt. Eina lausnin sé að grípa til loftslagsaðgerða á heimsvísu.
