Erlent

Venesúela: Brynvörðum bílum ekið inn í hóp fólks

Birgir Olgeirsson skrifar
Myndatökumenn náðu að festa á filmu þegar brynvörðum bifreiðum var ekið inn í hóp fólks en ekki er vitað hvort einhvern hafi sakað.
Myndatökumenn náðu að festa á filmu þegar brynvörðum bifreiðum var ekið inn í hóp fólks en ekki er vitað hvort einhvern hafi sakað. Vísir/Getty
Yfirvöld í Venesúela segjast hafa komið í veg fyrir tilraun til valdaráns á meðan Juan Guaidó segist vera á lokametrunum við að binda endi á valdatíð forsetans Nicolás Maduro.

Myndband var birt fyrir skömmu af Guaidó þar sem hann er umkringdur einkennisklæddum mönnum og segist hafa stuðning herliðs. Guaidó lýsti því yfir að hann væri sjálfskipaður forseti landsins í janúar síðastliðnum en hann óskaði í dag eftir frekari aðstoð frá liðsmönnum venesúelska hersins við að binda endi á valdarán Maduro.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir hins vegar frá því að svo virðist sem háttsettir menn innan hersins styðji Maduro.

Varnarmálaráðherra Venesúela kom fram í sjónvarpi til að ítreka stuðning hersins við Maduora. Hins vegar hafa myndir birst frá höfuðborginni Caracas þar sem hermenn sjást skipa sér við hlið Guaidó.

Andstæðingar Maduro vona að hermenn muni skipta um skoðun í ljósi mikillar gremju sem ríkir í Venesúela þar sem óðaverðbólga og skortur á raforku, matvælum og lyfjum hafa plagað þjóðina.

Fylkingar hafa komið saman víðs vegar í Caracas, annars vegar skipaðar stuðningsmönnum Maduro og hins vegar Guaidó. Til átaka hefur komið á milli stuðningsmanna Guaidó og hersins en mótmælendur hafa sést kasta grjóti en fá á móti táragas og halda hermenn aftur af þeim með öflugum vatnsbyssum.

Myndatökumenn náðu að festa á filmu þegar brynvörðum bifreiðum var ekið inn í hóp fólks en ekki er vitað hvort einhvern hafi sakað.

Varnarmálaráðherra, Vladimir Padrino, segir að komið hafi verið í veg fyrir uppreisn hermanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×