Yfirmaður íranska byltingarvarðarins segir að Íranir séu á „barmi meiriháttar átaka við óvininn“. Vaxandi spenna hefur verið á milli bandarískra og íranskra stjórnvalda undanfarið. Bandaríkjastjórn kallaði starfsmenn heim frá Írak í dag vegna óskilgreindrar ógnar frá Írönum.
„Þessi stund í sögunni, vegna þess að óvinurinn hefur stígið inn á völl átaka við okkar með allri mögulegri getu, er ögurstund íslömsku byltingarinnar,“ sagði Hossein Salami, undirhershöfðingi, í dag. Hann var skipaður yfirmaður byltingarvarðarins í síðasta mánuði. Donald Trump Bandaríkjaforseti setti byltingarvörðinn á lista yfir hryðjuverkasamtök í apríl.
Bandaríkjastjórn hefur flutt aukið herlið til Miðausturlanda að undanfarna, þar á meðal flugmóðurskip, B-52-sprengjuflugvélar og Patriot-eldflaugar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Herflutningana hefur hún réttlætt með vísun í ógn sem steðji að hermönnum og hagsmunum Bandaríkjanna af Írönum í heimshlutanum.
Engar frekari skýringar hafa verið gefnar á ákvörðun bandaríska utanríkisráðuneytisins að kalla alla starfsmenn sína í Bagdad og Ebril í Írak heim nema þá allra mikilvægustu. Aðeins var vísað í bráða ógn af Írönum og hersveitum þeim tengdum í Írak og Sýrlandi.
Leyniþjónustur evrópskra bandamanna Bandaríkjanna hafa ekki orðið varir við slíka ógn. Þannig sagðist Chris Ghika, breskur undirhershöfðingi, ekki kannast við þá ógn þegar hann heimsótti bandaríska varnarmálaráðuneytið í gær. Skömmu síðar greip yfirstjórn Bandaríkjahers til þess óvanalega ráðs að setja ofan í við undirhershöfðingjann, að sögn New York Times.
Íran: „Á barmi átaka við óvininn“

Tengdar fréttir

Segja bandarískar hersveitir enga ógn
Hershöfðingi í íranska Byltingarvarðliðinu segir að vera bandarískra hersveita á Persaflóa sé aðeins sálfræðihernaður og hluti áætlunar til að hræða stjórnvöld í Teheran.

Spenna á milli Íran og Bandaríkjanna fer vaxandi
Hassan Rouhani, forseti Íran, segir álagið af viðskiptaþvingunum sem verið er að beita ríkinu fordæmislausar.

Kalla starfsmenn heim frá Írak
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa skipað flestum starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins í Baghdad og Ebril að yfirgefa Írak hið snarasta.

Segir hættu á stríði á milli Bandaríkjanna og Íran
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir hættu á að Bandaríkin og Íran fari í stríð án þess að ætla það.